Myndir frá generalprufu | Myndir úr Ronju

Fólkið á bak við sýninguna

 

Það er heilmikill haugur af mannskap sem kemur að uppsetningu á leikverki sem Ronju ræningjadóttur.  Í frumsýningarpartíum og á alls kyns vettvangi, eins og til dæmis þessari síðu, er algengt að talað sé um að allir sem komu að stykkinu hafi staðið sig frábærlega og hver og einn sé ómissandi.  En það eru allir löngu komnir með upp í kok á svoleiðis kjaftavaðli, þess vegna skellum við hér upp lista yfir mikilvægasta fólkið í Freyvangsleikhúsinu, hinir geta étið það sem úti frýs.

 

Búningar

Dýrleif Jónsdóttir fór fyrir vöskum hóp kvenna í búningadeild.  Sátu þær kvöld eftir kvöld í fundarherbergi Freyvangs við að sauma, svo leikararnir kæmu ekki allslausir fram á svið. Á meðan sátu heilu fjölskyldurnar á hakanum. Útkomuna sjá þeir sem fara í Freyvang, og þeir sem skoða myndirnar á þessari síðu. Dýrleif, Svava, Matta og Hrefna, þið eruð snillingar, á meðan hæfileika ykkar nýtur við verða búningar Freyvangsleikhússins í hæsta gæðaflokki.  Maður kemst næstum við.

 

Smíði

Smiðirnir lágu heldur ekki á liði sínu.  Eyjólfur, Árni og Baldur létu sitt ekki eftir liggja, en þungavigtamennirnir í timburúrvinnslunni voru án efa þeir Dóri og Palli.  Afrek þeirra má nú líta augum í leikmynd Ronju ræningjadóttur, það er listasmíði sem seint líður úr hugum fólks.

 

Hár og förðun

Á meðan flestir leikararnir láta sér nægja að smyrja framan í sig meiki og strika óreglulegar línur kringum augun, þurfa aðrir að  eyða hálfum deginum í að hamast í hárinu og smettinu á meðleikurum sínum.  Halldóra mætir snemma í Freyvang til að eiga við hár Ronju, Matthíasar og fleiri, á meðan þau hafa það náðugt í stólnum hjá henni.  Sérstaklega má benda á hár Ronju sem er mikið listaverk. Þá  þarf hún einnig að koma sér í gervi skógarnornar og trítla upp á svið löngu áður en sýning byrjar. Eva sýslar mestmegnis við að gera Ingólf gamlan og gráhærðan, og er að sama skapi lagin við það.  Hún er þó svo heppin að þurfa ekki sérstaklega á búningum eða föðrun að halda fyrir sín hlutverk.  Þær systur fá hrós okkar fyrir dugnað og elju og svo framvegis.

 

Hljómsveit

Ekki eins föst á bak við tjöldin eins og aðrir aðstandendur sem ég hef talið upp hér, en hljómsveitin þarf nú samt að fá hrós og klapp á bak fyrir góða frammistöðu.  Hjálmar, Beggi og Gunnur Ýr fara á kostum og skapar tónlistin skemmtilegan blæ í stykkinu. 

 

Formaður

Það var greinilega á stefnuskrá Maríu Gunnarsdóttur allt frá byrjun að koma barnaleikriti á fjalirnar í Freyvangi.  Og það má með sanni segja að hún eigi mestan heiðurinn að þessari sýningu.  Stuðningur helstu samstarfsmanna hennar hefur verið mikill í orði, en ekki alltaf á borði, og hefur María mátt ganga í svo mörg verk fyrir þessa sýningu að það hleypur á tugum ársverka.  Maja, þetta er þín sýning.

 

Leikararnir

Leikararnir eru húðlatt og athyglissjúkt pakk sem hugsar ekki um annað en að koma fram fyrir  hóp af fólki og hrópa „Hér er ég!“  Svo skemmtilega vill þó til að þetta er samt allt frábært fólk sem leggur sig hundrað prósent fram við að gera hverja sýningu að frábærri skemmtun.  Það má segja að leikhópur sé eins og íþróttalið, hann kemur saman og keppist við að ná árangri.  Leikrit er sýning, rétt eins og íþróttaviðburðir, og eftir sýningar er iðulega fagnað góðri frammistöðu, eða hlegið yfir mistökum.  Á hverju ári bætast liðsmenn í hópinn og nú er þessi samlíking kominn út í tóma vitleysu svo ég læt staðar numið hér.  Góða skemmtun og ÁFRAM RONJA!

 

Aðrir, sem eiga sérstakar þakkir skilið:

Húsverðir, Bóas og Baldur, hljóð- og ljósamenn, Leifur Guðmundsson, Guðfinna Guðmundsdóttir, Emilía Baldursdóttir, Hansína marta Haraldsdóttir, Íris Hreinsdóttir, Bjarni Eiríkson, og Jónsteinn Aðalsteinsson.  Nei bíddu hann á ekki að vera þarna.   Einnig fá allir sem ég er að gleyma þakkir fyrir sinn þátt í að gera Ronju að veruleika.

Myndir frá generalprufu | Myndir úr Ronju